Heildsöluinnlán teljast forgangskröfur bú Landsbankans og Glitnis. Héraðsdómur Reykjavíkur felldi dóm í alls níu slíkum málum í morgun og var niðurstaða þeirra allra sú sama. Ef heildsöluinnlánin hefðu ekki verið flokkuð sem forgangskröfur hefðu slíkar minnkað um 150 milljarða króna hjá Landsbankanum og hann þar með getað greitt allar forgangskröfur sínar miðað við áætlanir slitastjórnar hans, þar með talin höfuðstól Icesave-skuldarinnar.

Landsbankinn viðurkenndi heildsöluinnlán sem forgangskröfur

Slitastjórn Landsbankans viðurkenndi heildsöluinnlán sem forgangskröfur þegar hún tók afstöðu til krafna í bú bankans. Það gerðu Glitnir og Kaupþing hins vegar ekki. Almennir kröfuhafar Landsbankans stefndu bankanum vegna þessa í þeirri von að yrðu heildsöluinnlánin ekki á meðal forgangskrafna þá gæti það skilað þeim einhverjum endurheimtum. Umfang lánanna er í kringum 150 milljarðar króna. Alls féllu sjö dómar í málum gegn Landsbankanum í morgun.

Forgangskröfur Glitnis hækka verði dómurinn staðfestur

Í tilfelli Glitnis voru það hins vegar heildsöluinnlánaeigendur sem stefndu búinu til að fá innlánin viðurkennd sem forgangskröfur. Alls féllu tveir dómar gegn Glitni í morgun.Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, staðfesti við Viðskiptablaðið rétt í þessu að niðurstaðan verði kærð til Hæstaréttar. Verði heildsöluinnlán staðfest sem forgangskröfur í Hæstarétti munu forgangskröfur í bú Glitnis aukast um tæpa 60 milljarða króna. Það þýðir að endurheimtur almennra kröfuhafa muni lækka um sömu upphæð. Vert er þó að taka fram að þrotabú Glitnis á fyrir öllum forgangskröfum sínum og áætlar að geta greitt almennum kröfuhöfum sínum hluta krafna sinna tilbaka óháð niðurstöðu málsins.