Stjórn Heimdallar segir í ályktun sem hún sendi frá sér í kvöld að það sé áhyggjuefni „þegar stjórnvöld eru beinlínis farin að þvælast fyrir og hrekja burt þá sem reyna að koma með erlent fjármagn til landsins."

Almennt væri mikilvægt að fá erlent fjármagn til landsins „og á það sérstaklega við um þessar mundir þegar erfitt er að fjármagna verkefni og uppbyggingu hér á landi," segir í ályktuninni.

Viðbrögð stjórnvalda gerðu það hins vegar að verkum að ýmis verkefni hefðu orðið að engu.

„Japanskir fjárfestar hafa í níu mánuði engin svör fengið við ætlunum sínum um að koma með á annað hundrað milljarða króna hingað til lands. Bandaríkjamaður sem vill fjárfesta í íslensku orkufyrirtæki þarf að mæta á fundi í fjármálaráðuneytinu til að sannfæra ráðherrann," segir í ályktuninni.

„Fyrr á árinu mættu hugmyndir norsks fjárfestis, sem vildi leigja vannýttar skurðstofur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til að veita þar þjónustu til sjúklinga frá Norðurlöndunum og skapa þannig gjaldeyristekjur, andstöðu heilbrigðisráðherra sem stöðvaði framgang málsins."

Í lok ályktunarinnar segir: „Sjálfsagt er að fara vel yfir allar hugmyndir og tillögur en það er áhyggjuefni þegar stjórnvöld eru beinlínis farin að þvælast fyrir og hrekja burt þá sem reyna að koma með erlent fjármagn til landsins. Heimdallur hvetur ráðamenn til að gera betur að þessu leyti."