Samkeppniseftirlitið heimilaði í gær Vodafone og Nova að hafa með sér tiltekið samstarf um rekstur dreifikerfis fyrir farsímaþjónustu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Forsenda samstarfsins er að aðilar hafa fallist á að hlíta skilyrðum sem vinna eiga gegn því að samstarf félaganna um rekstur dreifikerfisins raski samkeppni á mörkuðum fyrir farsímaþjónustu á bæði heildsölustigi og smásölustigi. Skilyrðin eru m.a. fólgin í því að félögin gegni fyrirmælum um óhæði stjórnenda, lykilstarfsmanna og stjórnarmanna félaganna tveggja.

Í tilkynningunni segir að skilyrðunum sé einnig ætlað að skapa fleiri valkosti og þar með aukna möguleika fyrir núverandi og nýja þjónustuaðila á markaði fyrir farsímaþjónustu á smásölustigi og stuðla þannig að frekari samkeppni á viðkomandi mörkuðum.