*

laugardagur, 24. október 2020
Innlent 15. ágúst 2020 16:34

Heimilistæki hagnast um 120 milljónir

Heildarsala Heimilistækja nam tæplega 5,5 milljörðum króna en hagnaður 120 milljónir, mánaðarleg leiga nam 18 milljónum.

Ritstjórn
Hlíðar Þór Hreinsson á fjórðungshlut í Heimilistækjum.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Heimilistækja nam 120 milljónum króna árið 2019 en 157 milljónum árið áður. Heildarsala félagsins var rétt undir 5,5 milljörðum króna en kostnaðarverð seldra vara nam 3,8 milljörðum og framlegð félagsins ríflega 1,6 milljarðar.

Launakostnaður hækkaði um 8,7% milli ára og nam tæplega milljarði króna, stöðugildi félagsins voru 107 að meðaltali í lok árs. Mánaðarleg leiga var 18 milljónir króna í árslok 2019.

Heildareignir Heimilistækja voru 2,1 milljarður króna í lok árs 2019, þar af voru vörubirgðir tæplega 1,4 milljarðar. Skuldir félagsins námu rúmlega 1,4 milljörðum og eigið fé var 654 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall félagsins var 31% samanborið við 27% árið áður.

Ólafur Már Hreinsson er framkvæmdastjóri Heimilistækja og 25% hluthafi. Tillaga um greiðslu arðs verður tekin fyrir á aðalfundi félagsins en það greiddi 30 milljónir króna í arð árið 2018.