Fyrstu löglegu heimilistölvurnar eru nú til sölu á Kúbu, en internetaðgangur verður áfram óheimill öðrum en ákveðnum vinnustöðum og menntastofnunum.

Þetta er nýjasta útspil forsetans Raul Castro, en hann hefur á síðustu vikum aflétt ýmsum boðum og bönnum þar í landi til að auðvelda Kúbverjum hið daglega líf. BBC greinir frá þessu í dag.

Raðir mynduðust við verslunarmiðstöðvar sem tölvurnar fengust, en þó komu flestir aðeins til að berja dýrgripina augum.

Tölvurnar á Kúbu kosta um 800 dollara, en meðalmánaðartekjur í kommúnistaríkinu eru um 20 dollarar á mánuði. Sumir Kúbverjar hafa þó aðgang að meira fé, þá aðallega fyrir tilstilli ættingja sem fara til Bandaríkjanna að vinna.

Meðal þess sem einnig hefur verið leyft á Kúbu á undanförnum vikum eru farsímar og DVD-spilarar. Allur internetaðgangur Kúbverja í dag er í gegnum gervihnött, sem er einkar dýr og hægvirkur máti til þess arna.

Stjórnvöld á Kúbu herma að viðskiptabann Bandaríkjanna geri þeim ókleift að tengjast einhverjum þeim ljósleiðurum sem liggja nærri eyjunni.

Hugo Chavez, forseti Venezuela og harður andstæðingur Bandaríkjastjórnar er þó að leggja sæstreng um karabíska hafið og bundnar eru vonir við að internetaðgangur batni til muna á Kúbu þegar þeirri framkvæmd er lokið.