Hluti kröfuhafa VBS fjárfestingarbanka (VBS), sem hefur verið í slitameðferð síðan 7. apríl sl., vill fá skýringar á því hvers vegna bankinn fékk að starfa í a.m.k. hálft til einu ári eftir að ljóst var að hann uppfyllti ekki lög og reglur um eigið fé og lausafé sem fjármálafyrirtæki þurfa að uppfylla.

Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu 3. júní sl. segir í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um að VBS skuli tekinn til slitameðferðar að samkvæmt skýrslu um fjárhag bankans hafi hann ekki staðist kröfur um lausafé og eiginfé. Þ.e. að eigið fé bankans hafi verið undir 8% lágmarki og lausaféð einnig of lítið.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur a.m.k. hluti kröfuhafanna grun um að bankinn hafi fengið að starfa lengur en hann hafði í raun burði til af því að ríkið ákvað að lána honum fé til til þess að létta honum róðurinn. Þennan tíma sem bankinn fékk að starfa hafi kröfuhafar í raun tapað umtalsverðum fjárhæðum og á endanum ríkið einnig, þar sem bankinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu (FME) á endanum.

Í mars á þessu ári var bankinn tekinn yfir og hann síðan tekinn til slitameðferðar 7. apríl eins og áður segir. Hróbjartur Jónatansson hrl., formaður slitastjórnar VBS, segir ítarlega skoðun vera í gangi á málefnum bankans sem endurskoðunarfyrirtækið Ernest & Young sér um. Þar er m.a. verið að skoða hvort tilefni er til þess að rifta einstaka gjörningum skömmu fyrir fall bankans, s.s breytingum á launasamningum og samningum við einstaka kröfuhafa, þar á meðal Landsbankann.

- Sjá nánar í Viðskiptablaðinu