*

föstudagur, 15. nóvember 2019
Erlent 30. mars 2016 11:54

Heimurinn að „drukkna“ í olíu

Bandarískir olíuframleiðendur hafa farið sérstaklega illa út úr verðbreytingum síðasta árs.

Ritstjórn
Olíuverð

Miklar hræringar hafa verið á olíumarkaði undanfarin misseri. Mikið offramboð hefur verið af olíu, birgðir hafa safnast upp og verðið gefið eftir. Olíuframleiðendur hafa boðað til fundar þann 17. apríl til að ræða möguleikann á samstilltu átaki til að  sporna gegn offramboði. Olíuverð hefur hækkað nokkuð í kjölfarið.

Olíuverð hækkar um 50% 

Greiningardeild Arion banka birti á dögunum samantekt um stöðu olíumarkaðsins. Eftir miklar lækkanir undanfarið ár hefur orðið mikill viðsnúningur og olíuverð í heiminum hefur hækkað um 50%. Erfitt er að meta hvort hér sé um að ræða varanlegar hækkkanir eða hvort að verðin muni aftur falla. 

Ástæða þess að heimsmarkaðsverð á olíu féll mikið á síðasta ári var offramboð af olíu sem olli því að birgðir söfnuðst upp og verðið gaf eftir. Þrátt fyrir þetta er útlit fyrir því að OPEC ríkin  muni standa undir framboðsaukningu og þá sérstaklega Íran sem kom aftur inn á olímarkað í janúar og hefur neitað að taka þátt í fyrirhuguðum framleiðslutakmörkunum.

Bandarískir olíuframleiðendur í vandræðum

Bandaríska orkugagnastofnunin, EIA, hefur nú fært framleiðsluspá sína fyrir árið 2016 upp á við eftir að framleiðslutölur ársins 2015 voru endurmetnar en svo virðist sem framleiðsla sé tregbreytanlegri en áður var talið. Í spám sínum gerir stofnunin ekki ráð fyrir sameiginlegu átaki til að sporna gegn offramboði, líkt og vangaveltur hefðu verið uppi um.

Ástæðan er enda  sú að þrátt fyrir allt er enn ódýrast fyrir OPEC-ríkin að framleiða olíu, þó framleiðslukostnaður sé breytilegur innan hvers lands.

Á sama tíma neyðast Bandaríkin til þess að draga saman seglin, en lönd með mikinn framleiðslukostnað, líkt og Bretland, Kanada og Braselía halda að sér höndum. Bandarískir framleiðendur hafa reynst viðkvæmir fyrir verðbreytingunum og í fyrra lýstu 42 olíufyrirtæki sig gjaldþrota í Norður-Ameríku, þar af 36 í Bandaríkjunum. Samanlagðar skuldir þeirra námu 17,2 milljörðum Bandaríkjadollara. Gjaldþrot það sem af er árinu eru orðin 9 talsins.

Staðan í dag

Samkvæmt greiningardeild Arion banka eru hugmyndir um framleiðsluþak að fá meiri meðbyr en áður. Þrátt fyrir það er sem fyrr segir ljóst að Íran situr hjá í slíkum samningaviðræðum. Boðað hefur til fundar i apríl með það að leiðarljósi að ná sáttum um slíkar framleiðslutakmarkanir. Þær hugmyndir sem kynntar hafa verið gefa til kynna að framleiðsluþakið muni miða við framleiðslu í janúar 2016 en það var einmitt þegar framleiðsla var í hæstu hæðum.

Þrátt fyrir lækkanir undanfara tvo mánuði er ljóst að framboðið á olíu í heiminm er ennþá umfram eftirspurn. Þetta þýðir að jafnvel þó að til framleiðsluþaks kæmi halda birðirnar áfram að vaxa.  

Stikkorð: Bandaríkin Olíuverð OPEC Bandaríkin