Heitar umræður urðu á Alþingi rétt í þessu þegar Birgir Ármannson, formaður allsherjarnefndar tók upp umræðu um skattamál í utandagskrárumræðum.

Birgir gagnrýndi viðhorf Vinstri hreyfingarinnar – Græns framboðs (VG) og sagði nauðsynlegt að atvinnulífið fengi jákvæð skilaboð frá stjórnvöldum. Þá gagnrýndi Birgir sérstaklega orðalag VG á nýliðnum flokksráðsfundi síðastliðna helgi.

Birgir spurði Steingrím J. Sigfússon formann VG hvort flokkurinn væri á móti nýkynntum skattalækkunum ríkisstjórnarinnar.

Steingrímur J. svaraði því til að nauðsynlegt að skattalækkunum væri beint til lágtekjufólks. Hann sagði það á ábyrgð ríkisstjórarinnar hvernig nú væri komið fyrir fjármálafyrirtækjum og sagði stjórnarflokkana þurfa að íhuga af hverju umræðan um efnahagsaðgerðir stæði sem um þessar mundir. Hann sagði það ekki samræmast hugmyndafræði VG að lækka skatta á fyrirtæki við núverandi aðstæður.

Steingrímur sagði nauðsynlegt að skatttekjur hins opinbera væru stöðugar til að hægt væri að reka öflugt velferðarkerfi.

Hann sagði nauðsynlegt að breyta viðmiðum fyrir fjármagnstekjuskatt þannig að almennt sparifé væri skattfrjálst en íhuga þurfi að hækka fjármagnstekuskatt þá sem miklar fjármagnstekjur hafa og nefndi hann 14% skatt sem viðmið.

Vinstri grænir mótmæla nýfrjálshyggju

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins tók til máls og sagði VG ávallt frekar vilja hækka skatta en lækka. Hann sagði tekjur hins opinbera aukast við skattalækkanir en því mótmælti Steingrímur J.

Bæði Birgir og Sigurður Kári minntust á nýútkomna bók sem á íslensku nefnist Skattalækkanir til kjarabóta. Þar vísuðu þeir í orð hagfræðinga um skattalækkanir og hvöttu til þess að lengra yrði gengið í skattalækkunum en þegar hefði verið gert.

Mikill kliður fór um salinn þegar Sigurður Kári minntist á nýútkomna bók og kölluðu stjórnarandstæðingar fram í og sökuðu þingmenn hann um að vera að auglýsa bækur um nýfrjálshyggju. Steingrímur J. Sigfússon sagði þingmenn Sjálfstæðisflokksins stunda nýfrjálshyggju trúboð í sölum Alþingis.

Sigurður Kári spurði forseta Alþingis hvort ekki væri við hæfi að ræða hagfræði á Alþingi. Hann sagði stjórnarandstöðuna ósjaldan hafa minnst á rannsóknir Stefáns Ólafssonar, Hörpu Njáls og ýmiss rit BSRB.

Þá ítrekaði hann nauðsyn þess að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki.