Hagnaður Icelandair Group eftir skatta árið 2006 nam 2,615 milljörðum króna, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var 6,058 milljarðar króna og EBIT nam 3,326 milljörðum og eykst um 28% frá síðasta ári.

Heildartekjur fyrirtækisins voru 56,1 milljarðar króna, sem er 23% aukning frá árinu 2005. Eiginfjárhlutfall er 34%, handbært fé frá rekstri 6,4 milljarðar króna og voru eignir 76,6 milljarðar króna í árslok 2006.

Afkoma Icelandair Group á fjórða ársfjórðungi 2006 var neikvæð um 555 milljónir króna.

Í upphafi árs 2006 tilkynnti FL Group áform sín um að selja frá sér rekstur Icelandair Group. Söluferlið stóð með hléum allt árið og lauk með skráningu félagsins í Kauphöll Íslands þann 14. desember. Icelandair stærsta fyrirtæki samstæðunnar með um 52% af tekjum félagsins.

"Rekstur samstæðunnar gekk mjög vel á árinu 2006 og afkoma var nokkuð betri en áætlanir okkar gerðu ráð fyrir, og sú besta í sögu félagsins. Það er sérstaklega ánægjulegt nú þegar félagið hefur verið skráð í Kauphöll Íslands og er orðið almenningshlutafélag að geta kynnt nýjum hluthöfum góðan hagnað af starfseminni," segir Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair Group.