Hagnaður VÍS nam 451 milljón króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er rúmlega helmingi minna en á fyrri hluta síðasta árs en þá nam hagnaðurinn 1.094 milljónum króna. Hagnaðurinn á öðrum ársfjórðungi nam 464,9 milljónum króna borið saman við rúmar 383,4 milljónir á öðrum ársfjórðungi í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri VÍS að iðgjöld á fyrstu sex mánuðum ársins námu 7.781 milljón króna borið saman við 7.971 milljónir á sama tíma í fyrra. Framlegð af vátryggingarekstri var 94 milljónir sem var verulegur samdráttur frá í fyrra þegar hún nam 221 milljón króna. Þá námu fjármunatekjur 663 milljónum króna borið saman við 1.374 milljónir á fyrri hluta árs 2013.

Þá segir í uppgjörinu að fjárfestingareignir námu við lok fyrri hluta ársins 35.015 milljónum króna borið saman við 36.581 milljón í lok síðasta árs.

Tekið er sérstaklega fram í uppgjörinu að á fyrri hluta ársins greiddi tryggingafélagið 1.831 milljónir króna í arð og keypti eigin bréf fyrir 74 milljónir króna.

Ávöxtun undir væntingum stjórnenda

Haft er eftir Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur forstjóra að reksturinn hafi gengið ágætlega á öðrum ársfjórðungi. Iðgjaldatekjur aukist frá fyrsta fjórðungi og verið lítið minni en á sama fjórðungi í fyrra.  Þá hafi tjónaþunginn verið nokkuð minni en á fyrsta fjórðungi. Þá hafi þróun á fjármálamörkuðum á tímabilinu leitt af sér að ávöxtun af fjárfestingasafni félagsins á fyrri helmingi ársins var nokkuð undir væntingum stjórnenda og verulega lakari en á sama tímabili árið 2013.

„Þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður námu fjármunatekjur á öðrum ársfjórðungi 492 milljónum króna.  Áherslur stjórnenda á að einfalda starfsemina og auka skilvirkni í rekstri hafa skilað sér í því að rekstrarkostnaður á fyrri helmingi ársins er nánast sá sami og hann var á fyrri helmingi ársins 2013,“ segir Sigrún Ragna.