Hallinn á rekstri hins opinbera nam 24 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins sem er óveruleg breyting frá sama tímabili í fyrra. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu minnkaði hallinn lítillega, úr 6,8% í 6,45%, að því er fram kemur í Hagtíðindum Hagstofu Íslands. Heildartekjur hins opinbera jukust um 9% á milli ára og fóru úr 154,6 milljörðum í 163,8 milljarða á verðlagi hvers árs en heildarútgjöld jukust minna eða um 5,4%. Rétt er að hafa í huga að vísitala neysluverðs hækkaði um liðlega 11% milli mars 2009 og mars 2010. Tekjuhalli sveitarfélaganna nam um einum milljarði króna á móti um 3,5 milljarða halla í fyrra sem skýrist af því að tekjur þeirra jukust um 4,6% á meðan útgjöldin stóðu því sem næst í stað.