Samfylkingin hefur síðustu misseri lagt mikla áherslu á að ná fram breytingum í stjórn fiskveiða hér á landi. Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, og aðrir einstaka þingmenn flokksins hafa lítið sparað stóru orðin þegar þau tjá sig í garð sjávarútvegsfyrirtækjanna á opinberum vettvangi.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins má finna ítarlegt viðtal við Helga Hjörvar, þingmann Samfylkingarinnar og formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Ekki verður hjá því komist að spyrja Helga hvað veldur þessum ákafa Samfylkingarinnar til að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu og af hverju flokkurinn hafi ekki fylgt hinni svokölluðu samningaleið sem var lögð fram árið 2010?

Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins en er þess í stað birtur hér í heild sinni.

„Það sem vegur þyngst er að almenningur eigi tilkall til auðlindarentunnar. Það er mjög óljóst við núverandi aðstæður hversu mikið það er,“ segir Helgi.

„Þegar við siglum í gegnum lægð eins og nú er þá eykst framlegðin í sjávarútvegnum gríðarlega á meðan margt annað atvinnulíf á í erfiðleikum. Ef það má gagnrýna stjórnvöld fyrir eitthvað þá er það kannski fyrir að vera of lin gagnvart sjávarútvegnum. Ég held að það orki mjög tvímælis að við skulum hafa farið að tilmælum Samtaka atvinnulífsins og hækkað launatengd gjöld á alla atvinnurekendur í landinu í stað þess að sækja í auðlindarrentuna inn í þær greinar þar sem klárlega var aðstaða til þess að standa undir því og hlífa hinum almenna atvinnulífi.“

Á m.ö.o. að refsa þeim sem gengur vel hverju sinni?

„Alls ekki, ég tel þvert á móti að það eigi að vera góður hagnaður í þeirri undirstöðuatvinnugrein sem sjávarútvegurinn er,“ segir Helgi.

„En ég held að þessar sveiflur sem greinin býr við út af okkar litla gjaldmiðli geri það að verkum að við þyrftum að vera með reglur sem hlífa sjávarútvegnum þegar gengið er sterkt eða afkoman að öðrum ástæðum er ekki góð, en að þeir skili sínu þegar betri aðstæður eru fyrir hendi. Að sjálfsögðu viljum við ekki taka allan arðinn af greininni, það á að vera arðsamt að stunda sjó.“

Helgi bendir á að reglur sem þessar hafi verið settar um olíuvinnslu hér á landi. Búið sé að setja upp almennan ramma sem feli það í sér að þeir sem komi til með að nýta þá auðlind þurfi að skila meiru í sameiginlega sjóði eftir því sem að hagnaðurinn er meiri í hlutfalli af veltu.

„Þetta er módel sem við höfum tekið frá nálægum ríkjum og hefur gefist vel. Við þyrftum að koma upp svipuðum reglum í orkugeiranum, m.a. til að auka fjárfestingu í þeim geira og gera einkaaðilum auðveldar að fjárfesta í auknum mæli í virkjunum,“ segir Helgi.

Helgi Hjörvar hefur verið áberandi síðustu misseri, ekki síst síðustu daga. Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Helgi yfir stöðu gengismála, gjaldeyrishafta, pólitíkina og samskiptin við atvinnulífið. Þá svarar Helgi spurningum um stöðu Jóhönnu Sigurðardóttur og Samfylkingarinnar almennt. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.