Stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna hefur í mörg ár talið áhugavert að kaupa hlut í Landsvirkjun, að sögn Helga Magnússonar, formanns stjórnar lífeyrissjóðsins. Lífeyrissjóður verslunarmanna er einn af stærstu lífeyrissjóðum landsins. Helgi segir í samtali við vb.is stjórnir lífeyrissjóðanna hafa hvorki rætt saman um hugsanleg kaup sjóðanna á eignarhlut í Landsvirkjun né mótað samræmda stefnu standi þeim slíkt til boði. Hann telur kaup á hlutabréfum í Landsvirkjun hljóta að vera tilvalið viðfangsefni fyrir íslenska lífeyrissjóði og aðra fagfjárfesta hér á landi, t.d. vátryggingarfélög, sjóði bankanna og fjármálafyrirtæki.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á fundi í Valhöll í gær að skoða eigi þann möguleika að selja lífeyrissjóðunum allt að þriðjungshlut ríkisins í Landsvirkjun. Að mati Bjarna er Landsvirkjun metin á 300 milljarða króna og þriðjungshlutur á um 100 milljarða, sem skili sér í ríkissjóð. Nýta megi féð til að grynnka á skuldum hins opinbera. Bjarni nefndi að setja megi skilyrði fyrir kaupum lífeyrissjóðanna á hlut ríkisins í Landsvirkjun, s.s. þau að ríkissjóður hafi forkaupsrétt að hlutafénu yrði það selt aftur.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur sagt það eigandans, ríkisstjórnarinnar, að ákveða hvort hlutur í fyrirtækinu verði seldur. Ekki hefur náðst í Katrínu Júlíusdóttur fjármálaráðherra við vinnslu fréttarinnar.

Ríkið þarf ekki að eiga Landsvirkjun

Helgi fagnar því að Bjarni hafi vakið athygli á málinu enda æskilegt að mál af þessu tagi fái umfjöllun í aðdraganda kosninga og að fyrir liggi hvaða stefnu flokkarnir fylgi í málum sem þessum.

„Þetta er eitt af þeim fyrirtækjum sem ríkið þarf ekki að eiga og það væri mjög skynsamlegt að lækka skuldir ríkissjóðs með því að selja hluta í Landsvirkjun, hvort það er einn þriðji, helmingur eða 60%. Það er mál sem þarf að ræða vandlega,“ segir hann og leggur áherslu á að grynnka verði á skuldasöfnuninni. Það megi jafnvel gera með því að selja allt að helmingshlut í Landsvirkjun í tveimur skrefum á árabilinu 2013 til 2014.

Helgi tekur jafnframt undir með Bjarna að setja megi skilyrði fyrir sölu á hlutabréfum í Landsvirkjun, s.s. forkaupsréttarákvæði.

„Ekkert væri að því að setja sérstök lög um þetta tiltekna fyrirtæki - vegna sérstöðu þess - sem heimilaði sölu á hluta þess til íslenskra fagfjárfesta og ekki annarra.“