Í viðtali við áramótatímarit Viðskiptablaðsins lét Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og fyrrv. formaður Samfylkingarinnar, þau orð falla að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og núverandi formaður Samfylkingarinnar, þyrfti að víkja sem formaður fyrir næstu kosningar og hleypa yngri aðilum að.

Blaðamaður Viðskiptablaðsins ber þessi orð undir Helga Hjörvar, þingmann Samfylkingarinnar, og minnir á að nú, tæpum þremur mánuðum seinna, hafi enn enginn staðið upp og mótmælt þessum orðum Össurar.

Á Helga má sjá að spurningin er óþægileg og hann hikar mjög áður en hann svarar.

„Ég held að Jóhanna muni sjálf ráða miklu um það hvenær hún hættir,“ segir hann og velur svar sitt vandlega.

„Hún hefur tekist á við alla þá erfiðleika sem hafa steðjað að á þessu kjörtímabili og þarf væntanlega að gera það upp við sig hvernig hún ætlar að skila því verkefni af sér, hvort hún haldi því hlutverki áfram sjálf eða feli einhverjum öðrum það.“

Þú hlýtur að hafa skoðun á því hvað hún á að gera, skýtur blaðamaður inn í.

„Í þeirri stöðu sem við í Samfylkingunni erum núna þá er augljóst að hjá okkur þurfa að verða umtalsverðar breytingar fyrir næstu kosningar. En það snýst meira um stefnuáherslur heldur en einstaka persónur,“ segir Helgi.

„Jóhanna hefur skilað þessu erfiða verki mjög vel, en við höfum augljóslega tapað tiltrú hluta af okkar kjósendum. Af því að Samfylkingin er draumur um stóran norrænan jafnaðarmannaflokk þarf hún að bregðast við núverandi stöðu. Flokkurinn þarf að leggja meiri áherslu á atvinnulífið og eins skuldamál ungu kynslóðarinnar, þ.e. þess fólks sem var að kaupa sér íbúðir á árunum fyrir hraun. Sú kynslóð þarf að upplifa meiri sanngirni í því hvernig komið er til móts við hana. Þetta er nokkuð sem Samfylkingin þarf að huga vel að á þessu síðasta ári kjörtímabilsins.“

Þá segir Helgi að hann telji að Samfylkingin hafi ekki skilað því nógu vel í ákvörðunum sínum og töluðum orðum að líkt og aðrir jafnaðarmannaflokkar hafi flokkurinn trú á markaðnum og frjálsum viðskiptum. Þetta tvennt sé drifkrafturinn að því að skapa hagvöxt og lífsgæði.

„Ástæðan fyrir því að það hefur tekist að skapa þau góðu lífskjör sem eru á Norðurlöndunum er sú að þeir hafa með mjög einbeittum hætti skapað samkeppnishæft atvinnulíf,“ segir Helgi.

„Það er einfaldlega best fyrir velferðarsamfélagið að eiga öflugt atvinnulíf og fyrir atvinnulífið að eiga öflugt velferðarsamfélag. Áhersluna á atvinnulífið þurfum við að halda betur til haga. Við urðum að taka ákvarðanir um það að hækka ýmsa skatta og gjöld vegna þess að ríkissjóður var um tíma rekinn með 500 milljóna króna tapi á dag. Ég held að ýmsir hafi upplifað það sem eitthvert hugsjónarlegt markmið okkar að auka skatta og álögur, en því fer þó fjarri.“

Nánar er rætt við Helga í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.