Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest ákvörðun Neytendastofu vegna kvörtunar Norðurflugs ehf á notkun Þyrluþjónustunar á lénunum „helicopters.is“, „Helicoptericeland.is“ og vörumerkinu „HELO HELICOPTER SERVICE OF ICELAND“.

Ákvörðun Neytendastofu, sem staðfest var af áfrýjunarnefnd, var að orðin „Helicopter“, „Service“ og „Iceland“ væru of almenn orð til að einn aðili geti notið einkaréttar á notkun þeirra. Auk þess væri orðasambandið „Helicopter Service of Iceland“ of lýsandi fyrir þjónustuna til að hægt væri að takmarka notkun þess og veita Norðurflugi einkarétt á notkun þess.

Norðurflug kærði málið upphaflega til Neytendastofu þann 20. janúar 2014 en Neytendastofa komst að niðurstöðu í málinu þann 1. desember 2014. Norðurflug kærði ákvörðun Neytendastofu þann 28. desember 2014 en áfrýjunarnefnd neytendamála hefur nú staðfest niðurstöðu Neytendastofu.