Aðeins sex dómarar dæma í Hæstarétti á næstu vikum, þar sem helmingur dómara er frá vegna landsdóms. Hæstaréttardómararnir hófu undirbúning fyrir landsdóm þann 10. febrúar síðastliðinn en þá hlýddu þeir á síðasta málflutning í Hæstarétti. Þeir verða frá þar til landsdómi lýkur. Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar, segir að nú sé unnið í tveimur þriggja manna teymum. Aðspurður hvort þetta hafi áhrif á afgreiðslu mála segir hann svo að sjálfsögðu vera, þar sem helmingur af dómurum sé ekki við réttinn. Því er ljóst að stærri mál verða ekki á dagskrá Hæstaréttar á meðan landsdómur situr.