*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 19. september 2019 10:50

Helmingur fyrirtækja í hættu

Fyrirtæki sem ekki nota stafrænar lausnir munu eiga undir högg að sækja í fjórðu iðnbyltingunni.

Ritstjórn
Ráðstefnan Bold Strategy Summit verður haldin í Hörpu í lok mánaðarins.
Haraldur Guðjónsson

Rithöfundurinn og ráðgjafinn Roger Camrass segir að kannanir sýni að fyrirtæki sem ekki nota stafrænar lausnir í rekstrinum verða hætt rekstri, jafnvel innan fimm ára. Camrass, sem verður einn ræðumanna á ráðstefnunni Bold Strategy Summit, segir að vegna þessa sé talið að helmingur allra fyrirtækja sem nú eru starfandi muni ekki lifa af fjórðu iðnbyltinguna þar sem reksturinn þeirra byggi á úreltum viðskiptamódelum. 

Ráðstefnan verður haldin í Hörpu þann 23. september nk. en þar verður helstu straumar við innleiðingu á stefnu. Á ráðstefnunni koma fram margir af helstu frumkvöðlum heims í stafrænni innleiðingu og ræða hvernig brúa megið bilið á milli stefnumótunar og innleiðingar með tæknibyltinguna að leiðarljósi. 

 Bjarni Snæbjörn Jónsson ráðgjafi er einn stofnenda Decideact Management sem stendur fyrir ráðstefnunni. Hann segir umræðuefnið eiga brýnt erindi miðað við þann veruleika sem blasir við samfara byltingu upplýsinga- og samskiptatækni sem margir segja að gangi svo langt að valda stærsta rofi í þróun mannlífsins hingað til.  

„Þeir sem verða ofan á eru þeir sem aðlagast tæknibreytingum hratt og örugglega. Samkvæmt könnunum eyða um 85% leiðtoga og stjórnenda minna en klukkutíma á mánuði í að ræða stefnu og 95% starfsmanna skilja ekki stefnu fyrirtækjanna sem þau vinna hjá. Þá er eðlilegt að spyrja: Hvers vegna eru menn þá að eyða öllum þessum tíma og peningum í að setja stefnuna ef þeim tekst ekki að innleiða hana og koma starfsmönnum í skilning um hvert er stefnt,“ spyr Bjarni Snæbjörn Jónsson.