Stefán Broddi Guðjónsson forstöðumaður Greiningardeildar Arion banka segir meginskýringu þess að íslensk heimili nýti einungis um helming yfirdráttaheimilda sinna vera bætta fjárhagsstöðu heimilanna að því er fram kemur í Morgunblaðinu .

„Þróun yfirdráttarlána virðist hafa verið í jafnvægi það sem af er þessu ári en síðustu ár hafa yfirdráttarlán heimila og ónýttar yfirdráttarheimildir þokast niður á við, “ segir Stefán Broddi en spurður hvort aukin neysla ætti ekki að koma fram í hærri yfirdráttarlánum segir hann tölurnar tala sínu máli.

„Það virðist enn ekki hafa gerst og það sýnir raunar hversu mikil kaupmáttar- og eignaaukning hefur orðið hjá flestum á undanförnum árum. Í sögulegu tilliti hafa íslensk heimili verið fullskuldug og þessi þróun er því nokkur breyting frá því, ekki síst í ljósi þess að vöruinnflutningur og neysla hafa almennt aukist töluvert.“

Stefán Broddi segir þó fulla ástæðu til að fylgjast með þróun skammtímaskulda almennings. „Ekki síst núna þegar flestar hagtölur gefa til kynna að hægja fari á hagkerfinu. Kaupmáttur mun varla hækka áfram með sama hraða og allra síðustu ár og húsnæðismarkaðurinn fer vonandi að nálgast eðlilegt ástand. Þá er nú betra að hafa ekki eytt um efni fram.“