Nóbelsskáldið Ernest Hemingway skrifaði endurminningarbókina 'A Moveable Feast' um tímann sem hann varði í höfuðborg Frakklands á öðrum áratug síðustu aldar. Bókin var gefin út árið 1964, eða þremur árum eftir að hann lést.

Nú rýkur bókin úr verslunum sem aldrei fyrr, í kjölfar Parísarárásanna, þar sem hryðjuverkasamtökin ISIS myrtu 129 manns og særðu ótal fleiri.

Pantanir á 'A Moveable Feast' hafa aukist fimmhundruðfalt síðan á mánudag, segir Amazon í Frakklandi.

Ástæðan ku vera sú að í bókinni er að finna einskonar lofsöng og ástaróð til kaffihúsa og veitingastaða Parísarborgar. Í bókinni segir Hemingway:

„Við átum vel og ódýrt og drukkum vel og ódýrt og sváfum vel og hlýlega saman og elskuðum hvort annað."

Fólk kaupir eintök af bókinni og les hana í kaffihúsum, segir í frásögn Bloomberg. Að lestrinum loknum leggur það eintakið sitt á minnisvarða um fórnarlömbin, í nafni samstöðu gegn hryðjuverkunum.