Vel má hugsa sér að heppilegt væri fyrir Íslendinga að læra af reynslu Norðmanna og setja sér þá stefnu að ríkið ætti ávallt 33% hlutafjár í Landsbankanum en 67% eignarhlutur yrði seldur hér innanlands í einu átaki til fagfjárfesta og einstaklinga. Er þetta meðal þess sem Helgi Magnússon, formaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Vísar hann til þeirrar ákvörðunar norska ríkisins að halda þriðjungshlut í DnB-bankanum. Þannig hefði ríkið umtalsverð áhrif á rekstur bankans án þess að hann væri alfarið í ríkiseignu með þeim ókostum sem því fylgja.

Segir Helgi að heppilegt væri að skrá bréf Landsbankans í Kauphöll Íslands og lyti bankinn því öllum þeim aga sem því fylgir. „Með því yrði aðkoma Bankasýslu óþörf í meginatriðum og þar með ætti bankinn að standa jafnfætis öðrum í samkeppni á markaði.“

Takist bönkunum að tryggja sér viðunandi fjármögnun til næstu ára á erlendum mörkuðum, ætti að mati Helga ekkert að vera að vanbúnaði að hefja sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum af fullum krafti.

„Flest bendir til þess að hlutabréfum í bönkunum yrði tekið vel á markaði hér á landi – að því gefnu að verðlagning væri sanngjörn og vel rökstudd miðað við aðstæður og í eðlilegu samræmi við verðlagningu á bönkum í heiminum um þessar mundir. Reynslan af þeim hlutafjárútboðum sem nýlega hafa farið fram hér á landi sýnir að áhugi fyrir hlutabréfum í öflugum fyrirtækjum er nú hratt vaxandi. Samhliða því eflist Kauphöll Íslands sem er mjög mikilvægt.“