Björgólfur Thor sagði í yfirlýsingu sinni í síðustu viku að hans viðskipti hefðu einkennst af raunverulegum viðskiptum með raunverulegar eignir, en ekki málamyndaviðskiptum með ímyndaðar eignir en þannig viðskipti hefðu verið ríkjandi í íslensku viðskiptalífi á undanförnu.

Björgólfur gerir grein fyrir því hvað hann átti við með þessum ummælum sínum í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu í dag.

„Ég hef í gegnum tíðina keypt fyrirtæki og selt þau aftur til óskyldra aðila. Ég kem að fyrirtækjum, kaupi þau af þriðja aðila og sel þau aftur til fjórða aðila fyrirhærra verð. Mismunurinn er raunverulegur hagnaður,“ segir Björgólfur Thor.„Hér heima gengu hlutir kaupum og sölum á milli tengdra aðila í einhvers konar hringrás. Þetta var algjört bull. Þetta var einhverskonar eignabóla sem þandist út og var blásin upp af skuldsetningu.

Hérna heima seldu menn aldrei neitt í alvörunni. Menn voru kannski að selja niður til tengdra aðila en það var aldrei skorið á nein eignartengsl. Þegar ég seldi félög seldi ég aðilum sem ég þekkti ekki eftir að hafa keypt þau af aðilum sem voru ekki skyldir mér. Mörkin voru skýrari, það voru kaupendur og seljendur. Hér heima voru menn að selja félög innan samstæðna, gefandi út víkjandi lán, framvirka samninga og hitt og þetta. Sterling-bullið er besta dæmið um þetta.Þetta var fáránlegt. Menn gortuðu sig af því að búa til mesta hagnað Íslandssögunnar á meðan þeir voru bara að byggja spilaborg,“ segir Björgólfur Thor.

-Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.