Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði, var sýknaður af meiðyrðakröfu Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi hæstaréttardómara, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. DV greinir frá þessu en dómurinn hefur ekki verið birtur á vef dómstólanna.

Þá segir DV að málskostnaður Þorvaldar hafi einnig verið felldur niður. Jón Steinar stefndi Þorvaldi vegna ummæla hans í grein sem birtist í ritröð háskólans í München í Þýskalandi.

Þar sagði Þorvaldur frá sögusögnum sem hann sagði að gengi þess efnis að Jón Steinar Gunnlaugsson hefði , á meðan hann var dómari við Hæstarétt, lagt drög að einni af kærunum sem sendar voru til Hæstaréttar í aðdraganda þess að kosningar til stjórnlagaráðs voru ógiltar.

Sem kunnugt er sat Þorvaldur Gylfason í stjórnlagaráði.