Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár , hlýtur Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar árið 2020. Sjóvá hefur vakið athygli fyrir góðan rekstur samhliða því að vera með ánægðustu viðskiptavini tryggingarfélaga. Þá hefur félagið verið í fararbroddi í jafnréttismálum.

Rekstur Sjóvár , undir stjórn Hermanns, hefur gengið afar vel undanfarin ár og félagið vaxið og dafnað. Í átján ársfjórðunga í röð hefur Sjóvá skilað jákvæðri afkomu í vátryggingarekstrinum, sem er einsdæmi í tryggingageiranum. Og þessu til viðbótar hefur ávöxtun fjárfestingaeigna gengið vel.

Góður rekstur endurspeglast meðal annars í því að félagið hefur, að arðgreiðslum meðtöldum, skilað hluthöfum sínum yfir 20% ávöxtun að meðaltali á ári frá árinu 2016. Það sem af er þessu ári hafa hlutabréf félagsins hækkað um 47%.
Samhliða þessu hefur viðskiptavinum Sjóvár fjölgað og státar félagið nú af því að vera með ánægðustu viðskiptavini tryggingarfélaga samkvæmt íslensku ánægjuvoginni. Var þetta einmitt eitt af markmiðunum, sem sett voru fyrir nokkrum árum og það náðist fyrr en áætlað hafði verið, sem er vel gert.

Sjóvá er í fararbroddi í jafnréttismálum með jafnt kynjahlutfall í stjórnunarstöðum sem og í öðrum stöðum . Hefur Sjóvá hlotið margar viðurkenningar fyrir árangur sinn í þessum málum og var það sem dæmi fyrsta fyrirtækið til að fá hæstu einkunn á GEMMAQ, kynjakvarða Kauphallarinnar.

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, viðskiptaverðlaun 2020
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, viðskiptaverðlaun 2020
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Hermann Björnsson tekur við viðurkenningarskjali og blómvendi frá Trausta Hafliðasyni, ritstjóra Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.

Réttur maður á réttum stað

Hermann á að baki þriggja áratuga feril í íslensku viðskiptalífi. Eftir lögfræðinámið árið 1990 hóf hann störf hjá Íslandsbanka. Þar starfaði hann í 16 ár, meðal annars sem forstöðumaður rekstrardeildar, forstöðumaður útibúasviðs bankans og aðstoðarframkvæmdastjóri þess.

Frá árinu 2006 til 2011 starfaði hann hjá Kaupþingi og Arion banka, meðal annars sem framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs.

Árið 2011 var hann síðan ráðinn forstjóri Sjóvar , sem þýðir að hann er nú búinn að stýra félaginu í að verða áratug, sem ber vitni um að hann sé réttur maður á réttum stað.

Leiðtogahæfileikar Hermanns hafa vakið athygli. Í fyrra hlaut hann sem dæmi stjórnunarverðlaun Stjórnvísi þegar hann var valinn yfirstjórnandi ársins. Var honum lýst sem kraftmiklum leiðtoga, sem legði áherslu á góð og opin samskipti og stuttar boðleiðir.

Venjulega eru verðlaunin formlega afhent í árlegu boði, sem haldið er á milli jóla og nýárs samhliða útgáfu tímaritsins Áramóta en vegna sóttvarnaaðgerða og fjöldatakmarkana í tengslum við þær var ekki unnt að halda slíkt boð að þessu sinni Aftur á móti var haldið fámennt boð rétt fyrir jól þar sem Hermanni voru veitt verðlaunin. Við það tilefni fluttu þeir Hermann og Trausti Hafliðason, ritstjóri Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, ræður sem hægt er að horfa á hér.

Ítarlegt viðtal við Hermann Björnsson er að finna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .