Pantanir á þýskum framleiðsluvörum hafa dregist saman í maímánuði, sjötta mánuðinn í röð.

Í Vegvísi Landsbankans segir að minnkandi eftirspurn eftir vörunum þyki enn ein vísbendingin um að farið sé að hægja á hjólunum hjá þessu stærsta hagkerfi Evrópu.

Árstíðaleiðréttar pantanir drógust saman um 0,9% frá aprílmánuði.

Sérfræðingar spáðu 0,8% aukningu pantanna samkvæmt spá sem Bloomberg fréttaveitan tekur saman og koma því tölurnar á óvart. Þá nemur samdrátturinn frá maímánuði 2007 um 2%.

Hátt matar- og olíuverð hefur komið illa niður á þýskri framleiðslu. Þjóðverjar flytja mikið magn vara úr landi og kemur því sterk staða evrunnar sér ekki vel fyrir útflutning þar í landi. Hafa pantanir á framleiðsluvörum ekki dregist saman yfir jafn langt skeið frá árinu 1992, en árið eftir hófst samdráttarskeið í Þýskalandi, segir í Vegvísi Landsbankans.