Föstudaginn  19. desember undirrituðu Ólafur Þ. Harðarson, forseti félagsvísindasviðs, Björg Thorarensen deildarforseti lagadeildar og Ingjaldur Hannibalsson  deildarforseti  viðskiptafræðideildar samning um að hefja nýtt meistaranám í skattarétti og reikningsskilum.

Námið hefst haustið 2009 og stendur yfir í fjögur misseri. Námið er þverfaglegt og skipulagt sameiginlega af viðskiptafræðideild annars vegar og lagadeild hins vegar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

Skipulag námsins er með þeim hætti að boðið er upp á námskeið í íslenskum og alþjóðlegum skattarétti, félagarétti, stjórnsýsluendurskoðun, samstæðureikningsskilum, reikningshaldi, endurskoðun, ársreikningagerð og greiningu ársreikninga. Námið er  90 eininga nám og lýkur með ritgerð.

Til að innritast í meistaranám í skattarétti og reikningsskilum þarf umsækjandi að hafa lokið BA prófi frá lagadeild Háskóla Íslands eða BS prófi eða BA prófi frá viðskiptafræðideild háskólans eða öðru háskólanámi sem metið er jafngilt fyrsta háskólaprófi í sambærilegum greinum.