„Í grunninn er ég teiknari og sögumaður; ég legg mikið upp úr að skapa heim með teikningunni sem allt sprettur út frá. Þeim heimi eru engin takmörk sett en eins og er þá einbeiti ég mér að fötum og fylgihlutum,“ útskýrir Hildur Yeoman fatahönnuður. Frá árinu 2009 hefur hún verið þekkt fyrir fallega fylgihluti sína en Yulia er fyrsta fatalínan sem hún setur á markað. Hildur útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2006 með B.A.-gráðu í fatahönnun. Þá hafði hún einnig farið í starfsnám til fylgihlutahönnuðanna Yazbukey í París og til Jonathan Saunders í London, sem er þekktur fyrir mynstur sín. Frá útskrift hefur hún komið að ýmiss konar verkefnum og sett upp fjölda sýninga sem lúta að tísku eða tískuteikningu, hér heima jafnt sem erlendis. Enn fremur hefur verið fjallað um hönnun hennar í tímaritum á borð við Dazed and Confuzed, Vogue, Garage og Purple Magazine. Hönnun Hildar fæst nú í Kiosk, Laugavegi og í Mýrinni, Kringlunni.

„Ég er yfirleitt með ákveðna músu í huga þegar ég er að hanna. Hún er mismunandi hverju sinni, en þetta eru allt sterkar kvenpersónur; konur sem ég lít upp til að einhverju leyti. Fyrir nýjustu línuna sótti ég innblástur til Yuliu, ömmu minnar sem var húsmóðir í Bandaríkjunum í kringum 1940. Hún var hörkukvendi sem hafnaði borgaralegum gildum þess tíma með því að stinga af frá steikinni í ofninum og fjölskyldu sinni og ferðast með mótorhjólagengi um álfuna í nokkur ár. Ég trúi því einnig að hún hafi verið rammgöldrótt og þangað sæki ég innblástur fyrir línuna sem er núna á teikniborðinu.“ Í nýju línunni eru silkiefni, viskós og þykk bómullarefni, segir Hildur. „Það er mjög misjafnt hvaða efni ég nota – það fer eftir því hvað ég er að gera. Flest efnin eiga það þó sameiginlegt að vera áprentuð teikningunum mínum; þar byrjar ferlið hjá mér, með teikningu. Fylgihlutirnir mínir eru gerðir úr nótagarni. Þetta eru skartgripir sem eru bróderaðir með alls kyns heilandi orkusteinum sem hafa góð áhrif á þann sem ber þá.“ Spennandi tímar eru fram undan hjá Hildi, sem nýverið hlaut hæsta styrk úr hönnunarsjóði Auroru til að halda áfram að þróa vörulínu sína. „Framtíðarmarkmiðið er að halda áfram að vinna við það sem færir mér hamingju,“ segir hún að lokum.

Nánar er fjallað um íslenska hönnun í Áramótatímariti Viðskiptablaðsins.