Greining Glitnis hefur gefið út skýrslu um stöðu og horfur í efnahagsmálum í Bretlandi, Bandaríkjunum og á evrusvæðinu í nóvember.

Samkvæmt greiningu Glitnis eru hjól bandaríska hagkerfisins farin að snúast hægar þótt hagvöxtur hafi mælst nokkuð mikill á 3. fjórðungi ársins. Dregið hefur úr iðnaðarframleiðslu þrátt fyrir sterka eftirspurn á heimsmörkuðum og samkeppnishæfara gengi Bandaríkjadals. Vinnumarkaðurinn stendur sig nokkuð vel miðað við veikburða fasteignamarkað og kólnun í hagkerfinu. Hagkerfið hefur haldið áfram að skapa störf og hefur hækkun launa dregið úr þörfinni fyrir samdrátt í neyslu. Nokkur óvissa ríkir um einkaneyslu þar sem mismunandi kraftar gætu staðið henni fyrir þrifum á næstu árum. Greining Glitnis telur því að hagvöxtur verði undir meðallagi og kælandi áhrif þess að húsnæðisbólan sprakk séu líkleg til að halda aftur af verðbólgu þar til hagkerfið sýnir aftur merki um sókn. Hagvöxtur í Bandaríkjunum hefur verið ójafn, en líklegt er að sá samdráttur í einkaneyslu sem búist er við og áframhaldandi fjárfestingatregða muni halda vexti vel undir langtímavaxtargetu, eða tæplega 3% á þessu ári og því næsta.

Í Bretlandi hefur mikil fjárfestingavöxtur stutt  hagvöxt undanfarið ár. Vöxturinn hefur þrifist á hagstæðri fjárhagslegri stöðu, greiðum aðgangi að lánsfé og vaxandi sterkri eftirspurn. Þrátt fyrir óróa á fjármálamörkuðum óx hagkerfið um 3,3% á ársgrundvelli á þriðja ársfjórðungi, sem er mesti vöxtur á ársgrundvelli í meira en þrjú ár og yfir meðalvaxtargetu. Hagvöxtur á tímabilinu var knúinn áfram af kröftugum vexti í þjónustugeiranum. Hagkerfið gengur enn á næstum fullum afköstum og þess sjást lítil merki að umsvif muni bíða verulega hnekki. Dvínandi bjartsýni neytenda og viðskiptalífs, sterkara pund og sneggri kólnun fasteignamarkaðar ásamt háum vöxtum ættu um síðir að taka sinn toll af hagvexti næsta árs. Að auki gæti óróinn á erlendum fjármálamörkuðum undanfarið haft neikvæð áhrif á efnahagshorfur. Mat Glitnis er að hægja muni á hagvexti á komandi fjórðungum og að viðskiptahalli dragist saman á næsta ári. Búast má við að vöxtur verði undir sögulegu meðaltali næstu tvö árin og að þrýstingur á framleiðslugetu dvíni aftur.

Hagvöxtur á evrusvæðinu hefur verið drifinn áfram af fjárfestingu og mjög góðri stöðu útflutningsgreina auk þess sem fyrirtæki eru enn vel stæð eftir mörg feit ár. Vöxtur í Evrópu hefur dvínað undanfarið en þar sem góður hagvöxtur í Asíu hefur haldist stöðugur búumst við ekki við miklum samdrætti í vexti. Hagvaxtartölur fyrir síðasta ár voru þær bestu frá því á síðasta áratug. Greining Glitnis telur að hagvöxtur fari ekki yfir 3% á komandi árum og að vöxtur þessa árs og 2008 muni hægja á sér í áttina að bilinu 2-2,5%, sem er nær sögulegu meðaltali. Sterk staða evrunnar er sennilega sú megináhætta sem evrópskt hagkerfi og hlutabréfamarkaðir standa frammi fyrir. Ódýrari vörur og þjónusta frá bandarískum fyrirtækjum munu hægja verulega á vexti fyrir evrópska útflytjendur. Þar sem einkaneysla er nú þegar dræm kann hagvöxtur jafnvel að fara niður fyrir 2-2.5%.