Greiningardeild KB banka hefur unnið verðmat á Landsbanka Íslands hf. Niðurstaða verðmatsins er að verðmæti félagsins sé rétt rúmlega 340 milljarðar króna sem gefur verðmatsgengið 31,5 krónur á hlut, en tólf mánaða "Target price" er 35. Greiningardeild mælir því með kaupum á bréfum félagsins. Verðmatið er, líkt og önnur verðmöt Greiningardeildar, eingöngu gefið út á ensku.

Verðmatið byggir á arðgreiðslulíkani og í því er gerð 11,1% ávöxtunarkrafa til eigin fjár Landsbankans. Þessi krafa byggir á áxöxtunarkröfu 10 ára ríkisskuldabréfa í þeim löndum þar sem bankinn er með starfsemi. "Þó er annarri aðferð beitt við að ákvarða nafnvexti á Íslandi vegna þess að löng óverðtryggð skuldabréf eru ekki til staðar. Í þeirra stað notum við ávöxtunarkröfu á 20 ára íbúðabréfum (HFF24) að viðbættu 2,5% álagi, sem er langtímamarkmið Seðlbankans um verðbólgu," segir greiningardeildin.

Spá rúmlega 35 milljarða hagnaði fyrir 2006

Í þessu verðmati birtist einnig uppfærð spá fyrir árið 2006, en Greiningardeild gerir ráð fyrir að hagnaður Landsbankans á árinu verði um 35.4 milljarðar króna. Þetta er 3,3 kr. hagnaður á hlut en hann var 2,3 á hlut á árinu 2005 og eykst því um 43,5% milli ára. "Við reiknum með aukningu á öllum sviðum bankans þó aukningin verði að líkindum einna mest í þóknanatekjum. Við gerum enn fremur ráð fyrir því að heildareignir bankans aukist um 29,9% milli ára," segir greiningardeildin.