Hlutabréf hækkuðu nokkuð í Asíu í dag og voru það helst tæknifyrirtæki og bílaframleiðendur sem leiddu hækkanir dagsins að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

MSCI Kyrrahafsvísitalan hækkaði um 1% í dag og hefur ekki verið hærri í tvær vikur.

Þá hækkaði Nikkei vísitalan í Japan um 1,5%, Hang Seng vísitalan í Hong Kong um 2% og Straits vísitalan í Singapúr um 0,6%.

Í Kína lækkaði þó CSI 300 vísitalan um 1,4% og í Ástralíu lækkaði S&P 200 um 0,3%.

Stærsta tryggingarfélag Kína, China Life lækkaði um tæp 5% í dag vegna náttúruhamfaranna þar í landi.

Fijitsu rafmangstækja- og tölvuframleiðandinn hækkaði um 13% í dag og hefur ekki hækkað jafn mikið á einum degi í 18 ár að sögn Bloomberg. Félagið tilkynnti í gær að hagnaður þess myndi að öllum líkindum hækka um helming á árinu.

Myndavélaframleiðandinn Nikon hækkaði um 13% eftir að félagið tilkynnti að það myndi kaupa allt að fjórar milljónir hluta í sjálfu sér af öðrum hluthöfum.

Og í Ástralíu er stór bankasamruni í vændum en St. George bankinn hækkaði um heil 25% í dag eftir að tilkynnt var að Westpac Banking myndi kaupa félagið fyrir um 17,6 milljarða Bandaríkjadali. Með samrunanum verður til næst stærsti banki Ástralíu.