Mikil hækkun var á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum í gær í fremur litlum viðskiptum. Tæknifyrirtæki leiddu þessa þróun þar sem Nasdaq vísitalan hækkaði um 2,1% yfir daginn en S&P 500 vísitalan hækkaði um 1,6% og Dow Jones vísitalan hækkaði um 1,4%. Hækkun gærdagsins var almenn og hækkaði verð fyrirtækja í öllum helstu atvinnugreinum.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að jákvæðar tölur af vinnumarkaði séu öðru fremur hafa stutt við þessa þróun í gær. Ótti markaðsaðila við hækkandi vexti, verðbólgu og hátt olíuverð sem einkennt hefur þróun markaða síðustu viku virðist hafa dvínað og einblína fjárfestar nú á grunnþætti hagkerfisins. Uppgangur í efnahagslífinu almennt og góð afkoma fyrirtækja að undanförnu styðja við hlutabréfaverð um þessar mundir en ófarir í Írak, hátt olíuverð o.fl. skyggja enn á.

"Á síðustu vikum hefur markaðurinn tekið við sér og standa helstu vísitölur í Bandaríkjunum nú hærra en þær hafa verið í rúman mánuð. Frá byrjun júnímánaðar hefur S&P 500 vísitalan hækkað um 1,8%, Nasdaq vísitalan um 1,7% og Dow Jones um 2%. Athyglisvert verður að fylgjast með þróun markaða þegar Seðlabanki Bandaríkjanna hefur vaxtahækkunarferli sitt," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.