Hlutabréf í Evrópu hafa hækkað það sem af er degi og hafa að sögn Reuters fréttastofunnar ekki verið hærri í 6 vikur.

Það eru olíufélög sem leiða hækkanir en olíuverð hefur hækkað vegna átaka milli Georgíu og Rússlands. Þá hafa bílaframleiðendur í Evrópu hækkað nokkuð í dag vegna lækkandi gengis Evrunnar.

FTSEurofirst 300 vísitalan hefur hækkað um 0,7% og hefur ekki verið hærri síðan 26. júní s.l. Vísitalan hefur lækkað um 20% það sem af er ári en hefur engu að síður hækkað um 2,1% það sem af er þessa mánaðar.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan hækkað um 0,6%, í Amsterdam hefur AEX vísitalan hækkað um 0,7% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan hækkað um 0,4%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan hækkað um 0,5% og í Sviss hefur SMI vísitalan 0,6%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan hækkað um 1,1%, í Osló hefur OBX vísitalan hækkað um 0,9% og í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan hækkað um 1,2%.

Evran lækkaði nokkuð fyrir helgi og sem fyrr segir hafa bílaframleiðendur notið góðs af því það sem af er degi í dag. Þannig hefur BMW hækkað um 3,5%, Daimler um 2,7% en Renault og Peugeot hafa hækkað um 2%.

Þá hafa olíufélögin BP, Shell og Total hækkað um 1,5 – 2% í dag.