*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Innlent 27. maí 2019 11:03

Hluta umsóknar Póstsins vísað frá

Íslandspóstur ætlaði að nýta fjármuni úr tómum sjóði til að endurgreiða neyðarlán frá ríkinu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur vísað frá hluta umsóknar Íslandspósts ohf. (ÍSP) um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna „ófjármagnaðrar alþjónustubyrðar“ áranna 2013-17. Eftir stendur að taka afstöðu til þess hvort umsókn vegna erlendra sendinga verður tekin til greina.

Fyrir jól sótti ÍSP um úthlutun úr sjóðnum til að mæta tapi sem félagið telur sig verða fyrir vegna kröfu um alþjónustu. Heildarupphæðin nam rúmum 2,6 milljörðum króna en kostnaðinn taldi ÍSP að rekja mætti til dreifingar í dreifbýli, sendinga fyrir blinda, hraða og tíðni sendinga og erlendra bréfa. Þá hafði einnig verið tekið tillit til ávinnings af einkaréttinum en hann var metinn um 705 milljónir.

Hluta umsóknarinnar var sem fyrr segir vísað frá en var það gert á þeim grundvelli að félagið hefði nú þegar fengið þann hluta byrðarinnar bættan í gegnum gjaldskrá einkaréttar. Þá var einnig bent á það af hálfu PFS að ef fallist væri á kröfur ÍSP væri verið að bæta félaginu tjón umfram það sem talist gæti eðlilegt endurgjald. Eftir stendur að taka tillit til þess hvort bæta skuli félaginu tap vegna erlendra sendinga.

Jöfnunarsjóður alþjónustu hefur aldrei verið virkjaður þegar kemur að póstrekendum og er staðan sú að ekki er til króna í honum. Verði fallist á umsókn ÍSP verður því að finna leiðir til að fjármagna sjóðinn. Umsóknin hefur verið harðlega gagnrýnd en í reglugerð um jöfnunarsjóðinn er kveðið á um að sækja verði um úthlutun úr sjóðnum framvirkt. Umsókn ÍSP var hins vegar afturvirk til fimm ára.

Úthlutun úr hinum galtóma sjóði var ein af forsendum þess að veita átti ÍSP 1,5 milljarðs neyðarlán frá ríkinu en félagið hugðist endurgreiða lánið með fjármunum úr sjóðnum. Ríkisábyrgðasjóður tók hins vegar fyrir að ÍSP fengi meira lánsfé og er því fyrirhugað að auka hlutafé félagsins um sömu upphæð.

Þeim hluta er snýr að erlendum sendingum var ekki vísað frá nú þar sem PFS hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort sá þáttur skuli teljast til alþjónustubyrðar eður ei. Þeirri staðhæfingu hefur ekki verið haldið á lofti af hálfu ÍSP fyrr en nýlega. Í tilkynningu frá PFS segir að niðurstaða í þeim hluta málsins muni liggja fyrir innan skamms.

Stikkorð: íslandspóstur
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is