Gengi hlutabréfa bandaríska netrisans Google hækkaði um 8% eftir að ársfjórðungsuppgjör fyrirtækisins var birt vestanhafs í gær. Gengi bréfa fyrirtækisins fór hæst í 959,65 dali á hlut í gærkvöldi og hefur það aldrei verið hærra. Gengi hlutabréfa hækkaði almennt vestanhafs í gær eftir að bandarískir þingmenn náðu saman um hækkun á skuldaþaki landsins.

Hagnaður Google nam 2,97 milljörðum dala á þriðja ársfjórðungi borið saman við 1,84 milljarða á sama tíma í fyrra. Þetta var umfram væntingar markaðsaðila. Þá námu tekjur 14,89 milljörðum dala á fjórðungnum. Það er lítillega yfir væntingum markaðsaðila. Á sama tíma og kostnaður við birtingu auglýsinga hjá Google lækkaði um 8% á milli ára jukust auglýsingatekjur um 28%.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir kaup Google á Motorola hafa sett strik í reikninginn og fyrirtækið þurft að bókfæra 248 milljóna dala tap af rekstri Motorola.

Larry Page, forstjóri og annar stofnenda Google, sagði í afkomutilkynningu Google að 40% þeirra sem skoði YouTube, sem jafnframt er í eigu Google, hafi horft á efni í símum sínum. Það segir sitt um tækniþróunina að aðeins 6% notenda YoutTube gerði það fyrir tveimur árum.