Hlutabréf hafa lækkað í Bandaríkjunum en markaðir þar hafa verið opnir í tæpan klukkutíma.

Nasdaq hefur lækkað um 1%, Dow Jones um 0,1% og S&P 500 um 0,3%.

Lækkunin kemur nokkuð á óvart samkvæmt Reuters fréttastofunni en nýjar tölur um þjóðarframleiðslu í Bandaríkjunum í morgun voru í takt við væntingar. Í mánaðarlegri skýrslu viðskiptaráðuneytis Bandaríkjanna kemur fram að þjóðarframleiðsla á mann er um 0,6% sem er í takt við væntingar. Þá fækkar þeim sem sækja um atvinnuleysisbætur um 9.000 manns milli vikna.

Í Evrópu hafa hlutabréf hækkað og segir viðmælandi Reuters að jákvæðar fréttir frá Bandaríkjunum virðast hafa haft jákvæð áhrif á markaði í Evrópu en þeir hafa reyndar hækkað frá því snemma í morgun en FTSEurofirst vísitalan hefur hækkað um 1,7% það sem af er degi.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan hækkað um 1%. Þá hefur DAX vísitalan í Frankfurt hækkað um 1,3% og AEX vísitalan í Amsterdam sömuleiðis.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan hækkað um 1% og í Osló hefur OBX vísitalan hækkað um 2,2%.