Hlutabréf hækkuðu í Evrópu í dag og að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja hækkanir dagsins til vonar fjárfesta um að Bandaríkjaþing samþykki í kvöld þær björgunaraðgerðir sem boðaðar hafa verið.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði um 2,9% í dag en hefur engu að síður lækkað um 1,5% í vikunni sem nú er á enda.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins. Þannig hækkaði BNP Paribas um 11%, Barclays um 8,9%, Credit Suisse um 8,3%, Royal Bank og Scotland um 8% og Credit Agricole um 7% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 2,3%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 4% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 2,4%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 3% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 2,2%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 2%, í Osló hækkaði OBX vísitalan  um 6,6% og í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 1,9%.