Hlutabréf hafa hækkað í Bandaríkjunum frá því að opnað var fyrir viðskipti fyrir um klukkustund.

Bloomberg fréttaveitan greinir frá því að enn eru engin tákn á lofti um að atvinnuleysi sé að aukast og þykja það jákvæðar fréttir þar sem talið er að fyrirtæki hafi og muni segja upp fólki til að ná niður rekstrarkostnaði, meðal annars vegna hækkandi eldsneytisverðs.

Nasdaq hefur hækkað um 0,5%, Dow Jones um 0,4% og S&P 500 um 0,3%.

Í Evrópu hafa flestir markaðir hins vegar lækkað það sem af er degi en FTSEurofirst 300 vísitalan hefur lækkað um 0,25%.

Í Lundúnum og Frankfurt standa FTSE 100 og DAX vísitölurnar í stað. Í Amsterdam hefur AEX vísitalan lækkað um 0,4% og í París hefur CAC 40 vísitalan lækkað um 0,15%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 1,2% en í Osló hefur OBX vísitalan hækkað um 2,1% en talið er að hækkandi olíuverð komi að góðum notum í Noregi að sögn Reuters fréttastofunnar.