Hlutabréf héldu áfram að lækka í Evrópu í dag og hafa nú ekki verið lægri síðan í maí 2005 að sögn Reuters fréttastofunnar.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði í dag um 2,5% og hefur nú lækkað um 28% frá áramótum.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins en óróa á fjármálamörkuðum er, eins og gefur að skilja, helst kennt um lækkanir dagsins.

Þannig lækkaði til að mynda svissneski bankinn UBS um 17,2% í dag, HBOS um 21,7%, Royal Bank of Scotland um 10,2%, Barclays um 9,5% og Fortis um 11,5% svo dæmi séu tekin.

Þá lækkuðu hlutbréf í olíu- og orkufyrirtækjum en hrávöruverð hefur, ásamt olíuverði lækkað nokkuð í dag. Til dæmis lækkuðu BP og Shell um 3% og 5,8%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 3,4% og fór gengi vísitölunnar í fyrsta skipti undir 5000 stig innan dags í fjögur ár, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 3,6% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 1,6%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 2% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 3%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1,7%, í Osló lækkaði OBX vísitalan um 5,8% og í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 2%.