Hlutabréfavísitölur lækkuðu mikið í síðustu viku í Bandaríkjunum, t.d. lækkaði Nasdaq um rúm 3% sem er þriðja mesta vikulega lækkun vísitölunnar á þessu ári. Uppgjörstímabilið byrjar fyrir alvöru í þessari viku en nokkur slæm uppgjör í síðustu viku ásamt lækkunum á rekstrarspám urðu til þess að markaðir lækkuðu. Afkomutölur General Electric, sem birtar voru á föstudaginn, reyndust hins vegar jákvæðar og gefa markaðsaðilum vonir um að gott uppgjörstímabil sé framundan. Uppgjörið var umfram væntingar markaðarins og þykir það sýna fram á kröftugan vöxt efnahagslífsins í Bandaríkjunum vegna breiðrar starfsemi félagsins.

Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að markaðir í þessari viku munu eflaust hreyfast í takt við afkomutölur. Í þessari viku munu félög eins og Intel, IBM, Apple, Bank of America og Citigroup birta afkomutölur. Sérfræðingar eru á þeirri skoðun að hagnaður félaganna verði að vera meiri en væntingar markaðsaðila ef hlutabréfaverð á að hækka. Þrátt fyrir að afkoman verði yfir væntingum markaðsaðila þá gætu breyttar rekstrarspár og hátt olíuverð valdið því að fjárfestar haldi að sér höndum.