Hlutabréfamarkaðir lækkuðu nokkuð í Evrópu í dag og hafa að sögn Reuters fréttastofunnar ekki verið lægri frá því í apríl árið 2003.

Lækkanir dagsins má, að sögn Reuters, rekja til lækkunar olíuverðs auk þess sem fjárfestar sjá ekki fyrir endann á lausafjárkrísunni.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði í dag um 3,7% en hafði þó um tíma lækkað um rúm 4%. Vísitalan hefur nú lækkað um 48% það sem af er ári.

Bankar og fjármálafyrirtæki voru áberandi í rauðum tölum dagsins. Þannig lækkaði Credit Suisse um 9,8%, Deutsche Bank um 9,4%, Barclaus um 8% og Santander um 5,5% svo dæmi séu tekin.

Einn banki, Royal Bank of Scotland, fór þó alveg í hina áttina en hlutabréf í bankanum hækkuðu um 8,8% eftir að samþykkt var aukið hlutafjárútboð á hluthafafundi í dag.