Það er ekki bara á Íslandi sem hlutabréfamarkaðir hafa tekið við sér á nýju ári. Í frétt í Financial Times kemur fram að innflæði fjármagns í bandaríska hlutabréfasjóði fyrstu viku ársins hafi ekki verið meira síðan í september 2007. Vikuna fram til níunda janúar ruku 22,2 milljarðar dala inn í slíka sjóði, en mest aukning hefur orðið í sjóðum sem einbeita sér að fjárfestingum í nýmarkaðsríkjum.

Þessi þróun, sem og hækkanir undanfarinna daga á erlendum hlutabréfamörkuðum, ýta undir vangaveltur um hvort loks sé komið að því að fjármagn flytji sig úr fjárfestingum sem almennt eru taldar öruggari eins og ríkisskuldabréfum og inn á hlutabréfamarkaði.

Í gær náðu bandarískar hlutabréfavísitölur hæðum sem þær hafa ekki náð í fimm ár og breska FTSE vísitalan hefur ekki verið hærri frá því að Lehman Brothers bankinn féll haustið 2008.