Hlutabréfamarkaðir í Evrópu hafa hækkað töluvert í morgun og eru hækkanirnar raktar til 100 milljarða evru neyðaraðstoðar ESB til spænskra banka, sem samþykkt var um helgina. Breska FTSE vísitalan hafði hækkað um 1,5% um klukkan 8:00 í dag, þýska DAX vísitalan um 2,17% og franska CAC um 2,1%. Spænska IBEX vísitalan hækkaði mest stóru evrópsku vísitalnanna, eða um 3,9%.

Þá hefur evran hefur styrkst um 1% gagnvart dollaranum og töluverðar hækkanir hafa verið á hrávörum. Þannig hefur heimsmarkaðsverð á olíu hækkað um 2% og er tunnan af Brent olíunni komin í rúmlega 101 dollara. Kopar hefur einnig hækkað í verði.

Evrópsk efnahagsmál eru þó ekki eintómur rósadans, því franski seðlabankinn býst nú við því að samdráttur verði í hagkerfi landsins á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Hafði bankinn búist við engum hagvexti á tímabilinu, en núna gerir hann ráð fyrir 0,1% samdrætti. Á sama tíma býst þýski seðlabankinn við 1,0% hagvexti á fjórðungnum, en fyrri spár gerðu ráð fyrir 0,6% hagvexti.