Hlutabréfamarkaðurinn í Bandaríkjunum hefur tekið við sér eftir að fregnir bárust af vaxandi sölu og tekjum álrisans Alcoa sem á og rekur álver Fjarðaráls í Reyðarfirði. Hækkuðu bréf í Alcoa um 1,1% í gær.

Alcoa kynnti óvæntan hagnað á þriðja ársfjórðungi í fyrradag eftir samfellt tap í þrjá ársfjórðunga þar á undan. Við þessi tíðindi hækkaði Nasdaq verðbréfavísitalan um 13,6 punkta eða 0,64% og fór í 2.123,93 stig. Þá hækkaði Standard & poors 500 vísitalan um 7,91 punkt eða 0,75% og endaði í 1065,48 stigum.

„Markaðurinn hefur verið að leita eftir ástæðum til að hækka og tölur Alcoa voru greinilega góð ástæða til þess,” sagði Jonathan Vyorst hjá Paradigm Capital management í smatali við The Wall Street Journal.

Samkvæmt tölum Alcoa fyrir þriðja ársfjórðung jókst veltan um 9% frá öðrum ársfjórðungi. Heildar hagnaður af reglulegri starfsemi nam 73 milljónum dollara, eða 0,07 dollurum á hlut samanborið við 312 milljóna dollara tap á öðrum ársfjórðungi.

Heildarvelta Alcoa á þriðja ársfjórðungi nam 4,6 milljörðum dollara samanborið við 4,2 milljarða dollara á öðrum ársfjórðungi. Er þetta um 9% aukning. Er þetta þó verulega mikið minni velta en á síðasta ári. Var veltan á þriðja ársfjórðungi 2008 7 milljarðar dollara, enda var verð á áli þá mun hærra.