Hlutabréfavísitölur í Evrópu hafa lækkað nokkuð í morgun í kjölfarið á áframhaldandi lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu auk mikillar lækkunar á hlutabréfamarkaði í Kína.

Við lokun markaða í Kína í morgun hafði SSE Composite vísitalan í Shanghai lækkað um 5,43%. Hún hefur ekki lækkað jafnmikið á einum degi síðan í ágúst árið 2009. Olíuverð hefur einnig farið lækkandi í morgun og kostaði tunnan af Brent Norðursjávarolíu minna en 66 dollara á tímabili. Það hefur hins vegar aðeins náð sér á strik og er nú komið yfir 67 dollara.

Við opnun markaða í Evrópu í morgun lækkuðu FTSE vísitalan í London, Dax vísitalan í Frankfurt og CAC vísitalan í París allar um meira en 1%. Lækkunin hefur þó gengið örlítið til baka og nemur nú 0,81% á Dax, 0,9% á CAC og 1% á FTSE.