Mikil hækkun hlutabréfa í Bandaríkjunum í gær eru að hafa áhrif á markaði í Evrópu auk þess sem markaðir opnuðu grænir í Bandaríkjunum fyrir stundu. Þá hafa jákvæðar fréttir af uppgjöri Morgan Stanley áhrif á markaði beggja vegna Atlantshafsins.

Markaðir í Evrópu opnuðu rauðir í morgun en eftir að Morgan Stanley tilkynnti uppgjör sitt hafa þeir tekið við sér á ný.

EURONEXT 100 vísitalan hefur verið í kringum núllið síðustu klukkutíma, hækkað um 0,7% en hefur nú lækkað um 0,3%.

FTSE 100 vísitalan í Lundúnum hefur, þegar þetta er skrifað kl. 14:00 hækkað um 0,1%, Dax vísitalan í Frankfurt hefur hækkað um 0,4% og AEX vísitalan í Amsterdam hefur hækkað um 0,6%.

Þá heldur skriðþungi hækkana í Bandaríkjunum í gær áfram vestanhafs. Við opnun markaða hækkuðu Nasdaq og Dow Jones strax 0,4% og S&P 500 vísitalan um 0,7%. Örlítið hefur dregið úr þeirri hækkun nú og fór Dow Jones vísitalan um skamma stund undir núllið.

Sem fyrr segir eru það jákvæðar fréttir af Morgan Stanley sem smita út frá sér í fjármálaheiminn almennt að mati Bloomberg fréttaveitunnar.

Þá hafa fjárfestingalánasjóðirnir Fannie Mae og Freddie Mac fengið heimild til þess að víkja frá ströngum eiginfjárkröfum sem um þau gilda, í því augnamiði að fyrirtækin geti dælt um 200 milljörðum Bandaríkjadala inn á fasteignamarkaðinn.