Gengi hlutabréfa lækkaði í Kauphöllinni á ný í dag. Þetta var annar dagurinn í röð sem það gerist eftir mikla uppsveiflu á markaðnum frá áramótum.

Gengi hlutabréfa Marel lækkaði mest eða um 1,31%. Þá lækkaði gengi bréfa Össurar um 0,99%, Eimskips um 0,59%, Icelandair Group um 0,21% og Vodafone um 0,15%. Á sama tíma hækkaði gengi bréfa Haga 1,69% og Regins um 0,16%.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,6% og endaði hún í rúmum 1.136 stigum. Hún fór hæst upp í 1.164 á mánudag í síðustu viku.

Greiningardeild Íslandsbanka fjallaði um hlutabréfamarkaðinn hér á landi í Morgunkorni sínu í dag. Þar sagði að aukin umsvif á markaðnum skýrist m.a. af auknu framboði hlutabréfa. Velta með hlutabréf í Kauphöllinni hefur numið rúmum 20 milljörðum króna frá áramótum en það er tífalt meira en á sama tíma í fyrra.