Ekki er ósennilegt að auka þurfi hlutafé Eimskipafélagsins[ HFEIM ], fari svo að 280 milljóna dollara lánsfjárábyrgð til XL Leisure Group falli á það, að sögn Sindra Sindrasonar, stjórnarformanns Eimaskipafélagsins. Yrði það unnið í samstarfi við hluthafa og lánardrottna.  XL Leisure Group hefur staðið í endurfjármögnunarviðræðum frá því í lok síðasta árs en ekki haft árangur sem erfiði.

Sindri  bendir einnig á þann möguleika að ábyrgðin gæti fallið að hluta á fyrirtækið. Upphæðin myndi gjaldfærast sem tap á þeim fjórðungi sem hún fellur til.

Breski ferðaheildsalinn XL Leisure Group, sem Eimaskipafélagið seldi í október 2006 fyrir um 450 milljónir dollara, á í fjármögnunarerfiðleikum. Breskir fjölmiðlar herma að XL Leisure eigi í viðræðum við helstu lánveitendur um áframhaldandi rekstur í kjölfar þess að breski bankinn Barclays hætti fjármögnun á eldsneytisvörnum félagsins.

Meðal lánveitenda er Straumur fjárfestingarbanki. Að því sögðu er vert að nefna að Björgólfsfeðgar eiga hagsmuna að gæta í því að endurfjármögnunin fari vel því þeir eru stærstu hluthafar Straums [ STRB ] og Eimaskipafélagsins.

Að greiða þessa lánsfjárábyrgð væri þungt högg fyrir Eimaskipafélagið. Fjárhæðin er um helmingur af eigin fé þess sem var veikt fyrir, eða 288 milljónir evra, en eiginfjárhlutfallið var komið niður í 14,4% við lok annars fjórðungs. Þegar hugsanleg lánsfjárábyrgð er dregin frá eigin fé félagsins, stendur eftir um 5% eiginfjárhlutfall, samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins sem þó taka ekki tillit til annarra breytilegra stærða.

Stjórnendur telja æskilegt að eiginfjárhlutfallið sé um 25%-30%.

Í næstu viku birtir félagið uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung. Meðalspá greiningardeildanna reiknar með tapi upp á 17,4 milljónir evra. Það gengur því á eigið fé félagsins.