Samkvæmt greiningu IFS gæti verðmæti eiginfjár Haga verið rúmir 14 milljarðar króna samkvæmt ársreikningi rekstrarárs 2009/10.

Sá útreikningur miðast við að hlutfall heildarvirðis á móti rekstrarhagnaði (EV/EBITDA ) sé 7,0. Það er nálægt meðaltali stórra verslunarkeðja erlendis.

Miðað við síðustu viðskipti með hlutabréf í Högum var verðmæti félagsins um 22 milljarðar króna. Líkt og fram hefur komið hefur Hagasamstæðan breyst töluvert frá síðasta ársreikningi og mun eignum þess fækka.

Í greiningu IFS segir að nauðsynlegt sé fyrir félagið að afla sér nýs hlutafjár til að styrkja eiginfjárstöðu þess. Því sé mögulegt að eigandi félagsins, Arion banki, þurfi að breyta skuldum í hlutafé.