Hlutdeild Íbúðalánasjóðs á fasteignalánamarkaði dróst töluvert saman síðastliðið ár, segir greiningardeild Landsbankans.

Í lok árs 2004 var hlutdeild Íbúðalánasjóðs á markaðnum 68% en um síðustu áramót var hún komin niður í 47%.

Upphæð útistandandi verðbréfa útgefinna af sjóðnum hækkaði um 8,1 milljarða króna. á árinu 2005 en efnahagur dróst saman um alls 3,2 miljarða.

Verkefni áhættustýringar sjóðsins hafa vaxið töluvert á síðasta ári, segir greiningardeildin.

Kröfur á lánastofnanir nærri þrefölduðust á árinu; fóru úr 33,4 milljörðum króna í 94,8 milljarða.

Íbúðalánasjóður hefur gert lánasamninga við bankana og hefur þar með fjármagnað hluta þeirra lána sem bankarnir hafa veitt.

Að teknu tilliti til lánasamninga Íbúðalánasjóðs og bankanna fæst að hlutdeild Íbúðalánasjóðs í fjármögnun fasteignalána er um 58%.