Meðaltal skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar er 1.350.000 krónur, en miðgildi upphæðarinnar er 1.216.000 krónur. Kom þetta fram í máli Halldórs Benjamíns Þorbergssonar á kynningarfundi um skuldaleiðréttinguna í dag. Hjón fá að meðaltali 1.510.000 krónur í sinn hlut, en einstaklingur 1.100.000 krónur.

Halldór Benjamín Þorbergsson.
Halldór Benjamín Þorbergsson.

Sagði hann að samkvæmt útreikningum Analytica muni kaupmáttur frjálsra ráðstöfunartekna fyrir þátttakendur í leiðréttingunni muni aukast um 17% á næstu þremur árum og þar af séu áhrif leiðréttingarinnar um 3%. Hlutfall afborgana og vaxtagjalda heimila af ráðstöfunartekjum muni lækka um 22% til ársins 2017 hjá þeim sem taka þátt í aðgerðinni.

Þá sagði hann að höfuðstóll lána þeirra sem nýti sér úrræði leiðréttingarinnar til fulls muni lækka um ríflega 20%, en mánaðarleg greiðslubyrði geti lækkað um ríflega 15%. Eftir þrjú ár hafi greiðslubyrðin lækkað um allt að 24.000 til 14.000 krónur, en þá er miðað við 15 milljóna króna 40 ára jafngreiðslulán. Er lækkunin mest í krónum talið á elstu lánunum.

Halldór Benjamín lagði áherslu á að skuldaniðurfellingin væri almenn efnahagsaðgerð, en ekki sértæk, sem gagnaðist öllum þeim sem sóttu um. Sagði hann helstu hagstærðir hafa farið úr böndunum árin 2008 og 2009 og verðbólga hafi aukist gífurlega á síðustu áratugum. Hún nemi nú um 140% af landsframleiðslu, en hafi verið 40% af landsframleiðslu árið 1990.

Halldór benti á að upprunalega hefði verið tilkynnt að leiðréttingarlánin yrðu afskrifuð á fjórum árum. Í staðinn muni afskriftin hins vegar fara fram á einungis einu ári. Heldarfjármögnun verði að fullu lokið í ársbyrjun 2016 og gerist því tveimur árum fyrr en áætlað var. Með þessu spari ríkissjóður umtalsverðan vaxtakostnað.

Samkvæmt núverandi áætlun greiðir ríkissjóður 40 milljarða til uppkaupa svonefndra leiðréttingarlána á árinu 2014, 20 milljarða í viðbót árið 2015 og sömu fjárhæð árið 2016. Leiðréttingarlánin verða þá afskrifuð að fullu.