Ætli Landsbankinn sér ekki að starfa líkt og hvert annað fyrirtæki á samkeppnismarkaði, er hættan sú að smátt og smátt dragist hann aftur úr keppinautum sínum sem ekki eru bundnir af sömu takmörkunum. Ef hluthafar telja hlutverk Landsbankans eiga að vera annað og að hann eigi ekki að taka fullan þátt í samkeppni á fjármálamarkaði og á markaðsforsendum er nauðsynlegt að sú stefnumörkun komi skýrt fram með breytingu á tilgangi félagsins í samþykktum eða með annarri ákvörðun á hluthafafundi.

Þetta kemur fram í skýrslu fyrrverandi bankaráðs Landsbankans til aðalfundar sem Helga Björk Eiríksdóttir, fyrrverandi formaður Bankaráðs, las upp á fundinum. Í skýrslunni er m.a. farið ofan í saumana á umdeildum kaupum Landsbankans á TM sem bankinn greiðir tæplega 29 milljarða króna fyrir.

Aðalfundur bankans fór fram í gær og var þar m.a. skipað nýtt bankaráð. Enginn af þeim sem sat í bankaráði var endurkjörinn í bankaráðið vegna TM kaupanna en þess ber þó að geta að það lá áður fyrir að formaður og varaformaður bankaráðsins hugðust ekki áfram gefa kost á sér.

Bankaráðið fyrrverandi segir að þrátt fyrir að Landsbankinn sé nær alfarið í eigu ríkisins sé honum í eigendastefnu gert að starfa á markaðsforsendum og hljóti því að eiga að taka fullan þátt í samkeppni á fjármálamarkaði hér eftir sem hingað til.

Telja kaupin í samræmi við eigendastefnu

Gagnrýni á kaup bankans á TM hafi ekki síst beinst að því að kaupin séu andstæð eigendastefnu ríkisins. Bankaráð sé því ósammála. Þvert á móti telji það kaupin falla að markmiðum og tilgangi eigendastefnunnar. Næst vísar bankaráðið fyrrverandi í eigendastefnuna frá 2020 þar sem segir: „Ríkið stefnir ekki að því að eiga meiri hluta í fjármálafyrirtækjum á almennum markaði til lengri tíma. Því er mikilvægt að umsýsla þessara eignarhluta sé fagleg, traust og á markaðsforsendum, m.a. til að hámarka söluandvirði og arðgreiðslur fyrir skattgreiðendur“.

Grundvöllur viðskiptanna hafi að sögn bankaráðsins fyrrverandi verið að hámarka virði eignarhluta ríkisins í Landsbankanum í samræmi við eigandastefnuna.

Í eigandastefnunni sé einnig fjallað um mikilvægi þess að stuðla að öflugri og virkri samkeppni og taka mið af því meginmarkmiði ríkisins að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Reglulegar og viðunandi arðgreiðslur frá og/eða sala hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum séu lykilatriði til að ná þessu markmiði. Bankaráð hafi unnið eftir þessum markmiðum stefnunnar, enda telji það ljóst að kaupin á TM muni til lengri tíma stuðla að aukinni arðsemi og auka arðgreiðslugetu bankans.

Ríkið stefnir ekki á að eiga meirihluta í fjármálafyrirtækjum til lengri tíma

Í ljósi fyrrgreindra skýringa bankaráðsins ber þó að geta þess að skýrt kemur fram í eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki, sem var gefin út af fjármála- og efnahagsráðuneytinu í febrúar árið 2020 og nær til þeirra fjármálafyrirtækja sem Bankasýsla ríkisins hefur umsjón með, að eitt af meginmarkmiðum eigendastefnunnar, eins og bankaráðið fyrrverandi vísar til hér að ofan, sé að ríkið stefni ekki að því að eiga meiri hluta í fjármálafyrirtækjum á almennum markaði til lengri tíma. Þá segir að „þrátt fyrir að stór hluti fjármálakerfisins sé um þessar mundir í eigu ríkisins er stefnan sú að íslensk fjármálafyrirtæki verði til framtíðar í fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi“.

Erfitt er að túlka ofangreind ákvæði eigendastefnunnar með öðrum hætti en að kaup Landsbankans á TM, og þar með ríkisvæðing eins stærsta tryggingafélags landsins, stríði gegn fyrrgreindum markmiðum.

Nýtt bankaráð kjörið

Eins og fyrr segir ákvað Bankasýsla ríkisins í ljósi kaupanna á TM, og þar sem stofnunin taldi fyrrverandi bankaráð hafa vanrækt skyldur sínar við kaupin, að tilnefna nýja einstaklinga í bankaráð Landsbankans á aðalfundinum sem fram fór í gær. Eins og við mátti búast voru allir þeir einstaklingar sem Bankasýslan tilnefndi kjörnir í bankaráð Landsbankans. Þau sem skipa bankaráðið eru:

  • Jón Þ. Sigurgeirsson, formaður
  • Eva Halldórsdóttir
  • Kristján Þ. Davíðsson
  • Rebekka Jóelsdóttir
  • Steinunn Þorsteinsdóttir
  • Þór Hauksson
  • Örn Guðmundsson

Varamenn:

  • Sigurður Jón Björnsson
  • Stefanía Halldórsdóttir